Thursday, June 22, 2006

Undarleg tilfinning

Framhaldsbíómyndir um ofurhetjur byrja oft á ákveðinni krísu. Lífið er komið í sinn vanagang, allt ætti að vera eðlilegt. Samt hefur eitthvað breyst. Ísland eftir Póllandsævintýrið er þannig fyrir mér. Það var undarlegt að upplifa alvöru rósemd. Að vakna við hanagal og sofna við geltandi hunda. Pólsk sveit með þremur kristskrossum og mynd af páfanum í herberginu mínu.
Þetta voru bara tíu dagar en þetta var líka heilt sumar. Ég held að ég ætti ekki erfitt með að búa á mannfáu og afskekktu svæði. Allavega ekki ef félagsskapurinn er tiltölulega heilbrigður á geði og heiðarlegur hvor við annan. Venjulega var hugarfar mitt alltaf að maður myndi alltaf missa úr við að láta sig hverfa. En þetta eru allt sömu hjólin, þau snúast bara mishratt.
Mín var saknað og við mér tók hlýja og blíða þegar ég kom til Íslands aftur. Mér þótti vænt um það. Mér þótti vænt um að sveiflast aftur inn í þessa ótrúlegu sumarrútínu mína..

Samt hefur eitthvað breyst. (dramatísk tónlist!)

Saturday, May 27, 2006

neun und neunzig luftballoons...

Einhvernveginn hef ég ekki enn tengt saman gengdarlausa lífshamingju og blogg. Eða sumar og blogg. Samt ætla ég að leyfa mér að blogga pínulítið, fyrst ég er kominn á bakvið gamla góða afgreiðsluborðið í túristabúðinni minni.
Margt hefur á daga mína drifið síðustu tvo mánuði, t.a.m. fékk ég staðfestingu frá Mariusz Golaj, pólverja sem vinnur á skrifstofu í 300 ára gömlu húsi um að ég mætti kíkja á leikhópinn hans í tíu daga námskeiði.
Ég er kominn með vinnu hjá hinu húsinu við að leikstýra fyrsta grínverkinu mínu. Að sjálfsögðu réði ég bara nánustu vini mína til að vera í því og bara ein í leikhópnum mun ekki flytja heim til mín eftir mánuð. Í gærmorgun var ég á mjög undarlegum fundi þar sem ráðgjafi var ráðinn af Útvarpsleikhússtjóra til að hjálpa mér að þróa splatterfarsann Byltingarhetjuna - sem ég var búinn að svo gott sem afskrifa -, ef það gengur í gegn þarf ég ekki að vinna neitt fyrir skólagjöldunum mínum næsta ár, bara skrifa. Síðan erum við Snorri að vinna saman að handriti, eins og við hefðum aldrei gert annað.
Ég nenni ekki að skrifa meira um mig, mér líður of vel til þess. Mig langar að nota tækifærið til að þakka öllum sem ég þekki fyrir hvað síðustu dagar hafa verið frábærir. Sumarið er ekki bara veðurfar, það er líka persónuleiki. Og ég er að fíla þennan gaur.
Til hamingju með útskriftirnar Benni og Sigga og Halli!

Saturday, April 08, 2006

Seasons of Love

Móment. Það er gaman þegar maður stendur frammi fyrir einhverju og áttar sig svo á því. Ég stóð sjálfan mig að því að vera að lesa í 'Marxism and literary criticism' og fletta í orðabók á netinu á orði sem mig langaði að vita nákvæma þýðingu á. Orðið var í tilvitnun í Lenín. Orðið var búið að standa stórum stöfum á google-skjánum tiltölulega lengi í bókabóðinni minni þar sem ég var með íslenskt etníska tónlist í spilun og afgreiddi með hálfum hug túrista á meðan hinn hluti hugans var í ritgerð um marxisma. Orðið var philistine.

Friday, April 07, 2006

Hressi endurskoðandinn

Ég má til með að deila þessu með alþjóð; ég sá endurkoðanda í sínu rétta umhverfi í fyrsta sinn í dag. Fjölskyldan sem ég er lög- og genabundinn meðlimur í, slær saman fjárhögum sínum ár hvert og sópar þeim til endurskoðanda. Af einhverjum óútskýrðum og mér ókunnugum ástæðum ákváðu foreldrar mínir að taka ekki mitt skattframtal og ekki sjá um mín mál. Þegar ég loksins komst að því eftir þrálátar spurningar, sagði pabbi á föðurlegan hátt(til að forðast sökina): "Sonur, nú er tími til að þú sjáir um þín fjármál... Og farir með þetta sjálfur til endurskoðandans okkar." Ég tók því fagnandi. Ég er fullorðinn maður. Ég er með bílpróf. Og í dag fór ég í þessa ferð...

Á þessum tímapunkti kann þetta að hljóma eins og leiðinlegasta blogg allra tíma, nema fyrir dulúðlegan og þversagnakenndan titillinn, 'Hressi endurskoðandinn' en það er afþví að þið hafið ekki séð þennan endurskoðanda.

Ég skal glaður viðurkenna að ég er með mjög fast mótaða fordómafullamynd í hausnum á mér um hvernig endurskoðandi lítur út. Hoknir menn með skallablett og þunnt ljósbrúnt hár greitt yfir, græn v-hálsmálspeysa og flókainniskór og buxur sem voru stífpressaðar 1979 og hefur ekki þurft að snerta við síðan. Gleraugun (því þeir eru undantekningarlaust með gleraugu) eru með bandi í spöngunum svo þau geti látið þau hanga á bringunni. Það er endurskoðandi.
Þegar ég kom inn á endurskoðendabækistöð hans og félaga hans sem ég sá hvergi, blasti við mér golfverðlaunaskjal, innrammað. Ég fór að skoða það því ég sá engann nærri. Út úr skriftofu hægra megin við mig spratt pínkulítill endurskoðandi og kallaði með afar skrækum rómi, 'get ég aðstoðað þig?' Hann var, svo maður noti orð fallega fólksins, hel-tannaður, með gullkeðju og með svart broddahár sem var byrjað að þynnast þó nokkuð. Jú hann var með gleraugu, en þau voru mjög nett, hann var í skyrtu, en hún var ermalaus svo fram spruttu karlmannlega loðnir handleggir og gullúr. Hann rauk út úr skrifstofunni og tók þéttingsfast í höndina á mér og heilsaði mér með skrækum en kumpánalegum rómi sínum. Hann var svo ör að ég þurfti að minna hann þrisvar á afhverju ég væri hérna og hvað vantaði upp á framtalið mitt og honum fannst þetta svo spennandi að hann dró mig inn á skrifstofu þar sem ég horfði á hann fylla inn þær smávægilegu upplýsingar sem ég hefði gert sjálfur væri ég ekki svona heimskur. Ég verð samt að viðurkenna, ég var líka spenntur. Þetta var eins og í draumi. Mér hætti hinsvegar að litast á blikuna þegar hann fyllti inn launamismun og eitthvað þessháttar og ég tók eftir handleggjunum á þessum manni sem náði mér upp að öxl. Hann var ekki bara karlmannlega loðinn og hel-tannaður heldur óþægilega massaður. Endurskoðandi!!

Ég hef sjaldan skemmt mér eins vel, hann var snöggur, hress, fyndinn, undarlegur og án undantekningar á skjön við allt sem ég hefði getað ímyndað mér um endurskoðanda. Ég vona að þetta hafi kennt ykkur; að fylla inn framtalið ykkar bara á netinu.

Saturday, April 01, 2006

Fyrirbærafræðilega bloggið hans Árna

Sæl, langt síðan ég sá ykkur síðast. Semsagt upplifði ykkur í raunheimi sem fyrirbæri en ekki sem hluta af fyrirfram niðurnegldu táknkerfi mínu, fast í huganum. Ég hef ekki skrifað inn á þetta blogg, það er að segja upplifað þörf til að festa niður í orð, með puttunum á lyklaborð, inn í táknkerfi sem aðrir geta séð og metið frá sínu sjónarhorni sem aðrir.
Þegar þið lesið þetta verður upplifun mín á þeim orðum sem ég setti saman með stöfum á lyklaborði á tölvu í skrifstofu pabba míns orðin einhver önnur og þið munið upplifa það sem eitthvað annað og þegar þið lesið þessa setningu aftur verður hún orðin önnur. Núna er hún orðin önnur. Og núna. o.s.frv.
Ég held að þið skiljið hvað ég á við en samt er það náttúrulega ykkar skilningur sem ég reikna þá með að sé svipaður en samt ekki sá sami og ég er að hugsa nema að því leyti að þið eruð innan sama táknkerfis og ég en bara með mismunandi fyrirbæri í kringum ykkur og að upplifa mig, bloggið og ykkur sem önnur en ég upplifi ykkur. Eins og þið vitið náttúrulega öll þá lesið þið þessa stafi sem er verið að skrifa núna með puttunum mínum og verðið að stöfunum og þar afleiðandi sjáið allt sem stafirnir sjá, puttana, aðra stafi.... annað...
Jæja, núna er ég kominn með hausverk, í hausnum, með verk og þið getið upplifað það sjálf ef þið ákveðið að það sé ykkar upplifun sem viðbragð sem ákvörðun í því fyrirbæri sem er ykkar upplifun. Ég held að það sé þá komið skýrt fram. Verið sæl.

Monday, February 27, 2006

Hand on your heart

Mig langar að tilkynna að ég er á móti öllum sem segja að Sylvía Nótt sé fyrirmynd sköpuð úr klámvæðingu og kvenfyrirlitningu. Ég er feministi.
Nær engum er sama um hana. Sumum finnst hún æði, öðrum finnst hún til skammar sem forsvari íslensku þjóðarinnar í Eurovision. Seinni hópurinn ætti að mínu mati aðeins að íhuga stöðu Eurovision í heiminum. Wigwam og Ruslana tryggðu það endanlega að hvort sem þjóð ákveður að taka þátt með "þjóðsöng" eða "keppnislagi" er það alltaf úrkynjuð og ýkt stereótýpa sem fellur í suðupott evrópskrar ruslmenningar. Jamms, hálfberir karlmenn í loðskóm að berja 20x of stórar trommur skoppandi um sviðið er ruslmenning, Ruslana í pels með eldvörpu er líka ruslmenning (vísun í atriðið hennar í fyrra). Alveg á sama hátt er stolið lag og glys og samræmdar tvíbura dansstelpur með neon-fyllt brjóst ruslmenning. Auðvitað er hrokafullt að taka sér valdið til þess að kalla eitthvað meira rusl en annað, en svona í alvöru talað, þegar virðingin fyrir formúlunni er meiri en gleðin til að skapa getur fólk alveg eins verið heima að lita þrautabækur barnanna sinna.
Auðvitað eru margar góðar undantekningar, en gervimennskan er í forgrunni engu að síður. Sylvía Nótt er bókstaflegt gervimenni. En hún höfðar þó til fólks, sama þó þetta fólk séu hugsanlega bara Íslendingar.
Þegar maður kemur inn á skemmtistaði bæjarins og plötusnúðurinn hefur ekki átt gott lag í kortér er alltaf magnað að sjá hvernig allar áhyggjur hans hverfa þegar sefjaður múgurinn spangólar Sylvíu Nóttar lagið (bónus fyndið að sjá fólkið sem kann símtals-textann í laginu utanað).
Ég styð Sylvíu Nótt. En ég treysti henni ekki. Hún er eins og Lína Langsokkur eftir að hafa alist upp í röngum félagsskap.
Of margar stelpur sem ég hef hitt hafa borið fyrir sig að þær væru "algjör Sylvía Nótt" og komið síðan fram af dónaskap, sjálfselsku og grimmd í skjóli þess að þessi ruslmiðla gervipersóna geri það. Mér líkar ekki fólk sem notar hana sem afsökun fyrir eigin hroka, þau eru ekkert skárri en fólkið sem ræðst í nafni kvenréttinda á þá konu sem hefur, án þess að þurfa nokkurn tímann að bugta sig eða beygja, náð eins langt og raun ber vitni.

Wednesday, February 22, 2006

(n)Ælan gengur

Jæja krakkar... Hún Ásta ældi á mig, svo:

4 sjónvarpsþættir sem ég elska að glápa á:

*Office
*Monty python's flying circus
*Team Antonssen
*The Critic
(semsagt nei, ég horfi ekki lengur á sjónvarp)


4 kvikmyndir sem ég horfi á aftur og aftur og aftur og aftur:

*Fargo
*Life of Brian
*LOTR (allar)
*Turtles 1


4 bækur sem ég les aftur og aftur:

*Birtingur - Voltaire
*Galdramaðurinn - Ursula LeGuin
*Cyrano de Bergerac - Edmond Rostand
*Impro - Keith Johnstone


4 plötur sem ég get hlustað á endalaust:

*Early Songs - Tom Waits
*Blood sugar sex magik - Red hot chili peppers
*Drive thru booty - Freakpower
*Hjálmar - Hjálmar


4 heimasíður sem ég skoða daglega:

*einkabankis.is ... og græt
*lhi.is
*hotmail.com
*arni.net


4 máltíðir sem ég slefa yfir:

*Máltíðinni hans Benna
*Máltíðinni hans Ella
*Ristuðu brauði... ef einhver annar á það
*Pavlov-kleinuhringjum. Þegar bjallan hringir þá er einhver maður sem er alltaf tilbúinn að skrifa niður...

4 sem ég æli á:

*Benni
*Ragnar Nói
*Inga
*Elli

Kvak andarinnar bergmálar ekki

þriðjudagur, febrúar 21, 2006
Kalt mat

Ég er ekki dómharður maður.Samt myndi ég frekar vilja banana og skyrdrykk frekar en að girða niðrum mig í 'Það var lagið' með Hemma GunnÉg hef lesið, ég hef slefað. Hafið þið það gott?

# posted by Karl @ 12:54 PM